Önnur sýn, Alfred C. Kinsey

Alfred C. Kinsey fæddist árið 1894 og dó 62 ára að aldri árið 1956. Hann var bandarískur og  frumkvöðull á sínu sviði.  Feril sinn hóf hann sem skordýra- og plöntufræðingur, en fékk að margra áliti aldrei þá viðurkenningu sem hann átti skilið fyrir þau verk sem hann vann á þeim vettvangi. Hinsvegar er Kinsey einna þekktastur fyrir að vera fyrsti lærði kynfræðingur mannkynssögunnar og fyrir útgáfu bókanna Sexual Behavior in the Human Male (1948) og Sexual Behavior in the Human Female (1953).

Í ákveðinn tíma starfsævinnar var áhugi Kinseys á kyngetu og kynþörf mannverunnar takmarkalaus og hann hvergi feiminn við að fjalla um þetta viðkvæma málefni. Hann lagði ómælda vinnu í ritstörf sín og tók meðal annars upp um þúsund viðtöl um kynferðislega upplifun karla og aðallega kvenna. Fyrir störf sín á þessum vettvangi hlaut hann umtalsverða gagnrýni og enn í dag eru margir ósáttir við störf hans, niðurstöður og athuganir. Þá vilja margir meina að Kinsey hafi með rannsóknum sínum beinlínis skaðað kynímynd kvenna og jafnvel barna, en aðrir benda á að hann hafi í raun einungis endurspeglað þann hugsunarhátt sem viðhafðist á þessum tíma. Ofangreindar bækur leiddu til umtalsverðrar deilu og opinberrar umræðu og var Kinsey meðal annars orðaður við að vera upphafsmaður kynlífsvæðingarinnar sem ól af sér hippamenninguna upp úr 1960 og þótti sumum nóg um.

Fyrir störf sín á þessum vettvangi hlaut hann umtalsverða gagnrýni og enn í dag eru margir ósáttir við störf hans, niðurstöður og athuganir. Þá vilja margir meina að Kinsey hafi með rannsóknum sínum beinlínis skaðað kynímynd kvenna og jafnvel barna, en aðrir benda á að hann hafi í raun einungis endurspeglað þann hugsunarhátt sem viðhafðist á þessum tíma.

Þá hafa menn velt vöngum yfir tengslunum á milli Alfred Kinseys kynfræðings annarsvegar, og Alfred Kinseys plöntu- og skordýrafræðings hinsvegar og sá síðarnefndi frekar staðið í skugganum af þeim fyrrnefnda. Í seinni tíð hafa einhverjir lagt sig fram um að kanna sambandið þarna á milli og jafnvel gengið langt í að upphefja alla þá vinnu sem Kinsey lagði í plöntulíf, gróður og skordýr.

pexels-photo-68590.jpeg

Kinsey lét nefnilega ekki staðar numið við æxlun, kynfæri og fullnægingar heldur vann nokkrum árum áður náið með Merritt L. Fernald, prófessor í plöntu- og gróðurfræði við Harvard University. Saman gáfu þeir út bókina Edible Wild Plants of Eastern North America árið 1943. Sú bók þótti ein af bestu bandarísku uppflettiritunum um plöntur og gróður á þessum tíma. Hún þótti nákvæm og praktísk og þeir félagar fengu afar jákvæða dóma frá gagnrýnendum fyrir vel unnið verk. Hinsvegar fór nafn Kinseys ekki hátt í ritdómum um bókina og hann jafnvel orðaður við að vera aðstoðar rithöfundur.

Fyrst vildu menn meina að það væri ráðgáta hvernig leiðir þeirra Kinseys og Fernalds prófessors í plöntu- og gróðurfræði lágu saman, en við nánari eftirgrennslan hefur komið í ljós að doktorsgráðu sína hlaut Kinsey hjá Bussey stofnuninni hjá Harvard háskóla. Við stofnunina, þar sem sérstök áhersla var lögð á landbúnað og ræktun, gengdi Fernald prófessorsstöðu. Í framhaldi af allri þeirri gagnrýni sem Kinsey fékk fyrir rannsóknir, viðhorf og skoðanir á kyngetu og kynhegðun mannskepnunnar virðist vinna hans og framtak við plöntuhandbókina nánast hafa þurrkast út. Þá er aðeins minnst á hann í framhjáhlaupi í ritdómum og umfjöllunum um bókina og vilja einhverjir meina að minna sé gert úr hans hluti en efni standa til.

Í framhaldi af allri þeirri gagnrýni sem Kinsey fékk fyrir rannsóknir, viðhorf og skoðanir á kyngetu og kynhegðun mannskepnunnar virðist vinna hans og framtak við plöntuhandbókina nánast hafa þurrkast út.

Kinsey fæddist í Hoboken í New Jersey. Uppvöxturinn markaðist af veikindum og stormasömum samskiptum við föður hans sem var strangtrúaður. Kinsey gerði sér far um að flýja frá pabba sínum út í náttúruna og fékk sérstaka ást á útiveru og fann frelsi frá eigin erfiðleikum í náttúrunni. Seinna leiddi þessi áhugi hann í skátana og um átján ára aldur hlaut hann Arnarorðuna, æðstu tign drengjaskátanna á þeim tíma. Hann kunni að lifa af í villtri náttúru og 27 ára hafði hann yfirumsjón með skátabúðum víða í norðurhluta New England. Í uppvextinum kveiknaði áhuginn á náttúrunni, plöntum og gróðri.

pexels-photo-175264.jpeg

Eftir frekar hefðbundna skólagöngu útskrifaðist Kinsey árið 1916 sem jarðfræðingur. Í september sama ár hóf hann doktorsnám í skordýra- og plöntufræði við Bussey stofnunina. Fernald kenndi þá plöntufræði við Bussey. Hann hafði þá aukið orðstí sinn með því að aðstoða við að ritsýra sjöundu útgáfu Asa Gray's, frægu uppflettiriti um garðrækt, sem gefið var út árið 1908. Þarna lágu leiðir þeirra Kinseys og Fernalds saman.  

Snemma á ferlinum lét Kinsey sig dreyma um að skrifa bók um ætar plöntur og gróður og einhvern tíman á milli þess sem hann sótti kúrsa í plöntu- og skordýrafræði, skrifaði lokaritgerð  og hafði umsjón með kennslu nýnema náði hann að leggja drög að uppkasti að umræddri bók. Margt bendir til þess að hann hafi átt frumkvæðið að skrifum bókarinnar en ekki Fernald. Í stuttu máli má segja að ástríða Kinseys fyrir grasa-, plöntu- og skordýrafræði hafi á sínum tíma verið eins sterk eins og ákafinn varð síðar meir fyrir kynlífi og kynhegðun.

Margt bendir til þess að hann hafi átt frumkvæðið að skrifum bókarinnar en ekki Fernald.

Margir hafa gert að því skóna að Kinsey hafi í raun verið aðalhöfundur plöntubókarinnar en gert Fernald að meðhöfundi til að tryggja veg og vanda bókarinnar. Hér verður ekki lagður dómur á það heldur aðeins varpað ljósi á þennan mann sem er agnarsmár hluti af mannskynssögunni en hefur vissulega sett sinn svip á hana.

Heimildir:

https://concernedwomen.org/images/content/kinsey-women_11_03.pdf

https://en.wikipedia.org/wiki/Alfred_Kinsey

http://www.naturalhistorymag.com/picks-from-the-past/151957/the-other-kinsey-report