Einfalt er best...en kannski ekki auðveldast...

Matur og matartilbúningur er stór hluti af ferðalaginu, hvert sem er haldið. Stundum er því haldið fram að því einfaldari sem hlutirnir eru því betri séu þeir. Margt getur verið til í því. Þó má árétta að allt sem er einfalt þarfnast utanumhalds og undirbúnings, hugmyndir kvikna ekki af sjálfum sér og maturinn verður ekki til af sjálfum sér, allt þarfnast skipulags.

image1 (1).jpeg

Í útilegum og ferðalögum um náttúru Íslands þarf alltaf að huga að matarræði og það í sjálfum sér þarfnast heilmikils undirbúnings. Þá þarf að velta fyrir sér ýmsum þáttum, svo sem lengd ferðar, fjölda ferðalanga og hverjar aðstæðurnar eru hverju sinni; vetur, sumar, vor eða haust? Hugsanlegt veðurfar og eldunarskilyrði? Auk þess þarf að huga að spurningum eins og; er eldavél á staðnum, þarf að taka með sér prímus eða annan eldunarbúnað og/eða þarf að bera með sér matinn? Menn þurfa að huga að þörfum ferðalanga, allt háð aldri og aðstæðum. Hvernig verður hægt að geyma matinn? Við hvaða skilyrði skemmist maturinn? Hvað endist best? Og svo framvegis.

IMG_6828.jpg

Svo sem lengi hægt að finna til hina eða þessa uppskriftina. Mestu máli skiptir að gera sér far um að sníða matseðilinn með það í huga að ferðalangar verði vel saddir og sælir eftir mislanga daga úti við. Þá hafa margir bent á að fátt standist til dæmis gamla góða hafragrautinn og margt til í því. Nánast hægt að tala um að það sé vísindalega sannað að hann sé meinhollur hvernig sem á það er litið. Margir hafa svo stígið skrefinu lengra og bætt út í hann ýmisskonar  bætiefnum“ , svo sem hnetum, döðlum, rúsínum og öðru því sem fellur til en óhætt að fullyrða að hann, einn og sér standist hverja raun.

FullSizeRender (13).jpg

Eftir langan dag á fjöllum eða á ferðalagi getur fátt verið jafn mikið gleðiefni og að elda saman þegar húma tekur að kvöldi. Að setjast yfir grill, prímus eða opinn eld, skera helstu hráefnin niður, spjalla og fara yfir sigra og ósigra dagsins, fátt er jafn gefandi. Þá skiptir oft á tíðum miklu máli að líta í kringum sig og tína til það sem einnig fellur til í náttúrunni, svo sem hundasúrur, blóðberg, sveppi, þang eða fjalldrapi, allt góðgæti sem hægt er að nýta í eldamennskuna. Jafnvel hægt að virkja ungviðið til að tína saman það allra helsta sem þarf til að krydda matseldina.

IMG-2131.JPG

Stundum er því þannig  farið að hvorki veður eða aðstæður bjóða upp á flókna matseld og þá er oft gott að geta gripið til einfaldari aðgerða. Mörg erlend fyrirtæki hafa lagt sig fram um að framleiða þurrmat sem seldur er í loftþéttum umbúðum í útivistarverslunum. Út á þurrmatinn er hellt vatni og hann svo borðaður af bestu lyst. Þá hafa einhverjir bent á haldbærar afðferðir til að gera þurrmatinn enn gómsætari, svo sem bæta í hann umtalsverðu magni af rjómasosti. Það skal tekið fram að framleiðsla á þurrmat hefur verið kappsmál fyrrgreindra fyrirtækja og mikið lagt upp úr því að tryggja rétt  næringarinnihald í umræddum mat, auk þess sem mönnum hefur þótt mikilvægt að bitinn smakkist vel.

Mest um vert er að láta sér ekki fallast hendur eða að gefast ekki upp þegar kemur að því að takast á við matseld í ferðalaginu. Oft er gott að leita ráða hjá þeim sem hafa kunnáttu til; hafa prófað, vita og þora. Eldamennska í íslenskri náttúru er ekki til að hræðast, heldur til að takast á við og framkvæma. Oft þarf ekki meira til en að setjast niður heima, láta hugann reika, láta sig dreyma, áætla og framkvæma og jafnvel að æfa sig áður en á hólminn er komið og haldið er út í náttúruna.