Villtur snjór í villtum huga

Snjór og kuldi að vetri, - í hugum margra fátt sem gleður meir, í hugum annarra fátt sem þreytir meir. Að þræla sér í gegnum illa ruddar götur; festa, ýta, moka og skella nagladekkjunum undir. Stika yfir svellbunka á misgóðum skóm og telja sjálfum sér trú um að veturinn verði góður. - Að fallegur snjórinn leggist yfir hrímgráa jörðina, vindhraði fari ekki yfir óviðráðanleg mörk og bleytutíð láti lítið sem ekkert fyrir sér fara. Staðreyndin er hinsvegar sú að við búum við sífelldar umhleypingar, einn daginn rigning hinn daginn snjókoma, rok og logn, frost og hiti.

Veturstígur.JPG

Elstu menn muna þegar tíðin var önnur. Snjórinn kom í október og magnið, - óendanlega mikið, og jú víða hvarf snjórinn ekki fyrr en í maí eða jafnvel í júní. Það var í þá tíð þegar göturnar voru mokaðar einu sinni á dag og fannfergið ógurlegt. Börnin létu sig falla af húsþökum í dúnmjúka fönnina og moka þurfti menn og mýs út úr húsum. Til urðu orð sem lýstu þessu ástandi þegar vatn og hiti stíga taktfastan dans; kafaldsbylur, hraglandi, maldringur, ofanfjúk, pos, mulla, svælingsbylur, geyfa... Öll lýsa þessi orð ákveðnu ástandi, spennuþrungnu sambandi vatns og hita; hraglandi harðari en logndrífa, mulla mýkra en svælingsbylur.

Börnin létu sig falla af húsþökum í dúnmjúka fönnina og moka þurfti menn og mýs út úr húsum. Til urðu orð sem lýstu þessu ástandi þegar vatn og hiti stíga taktfastan dans; kafaldsbylur, hraglandi, maldringur, ofanfjúk, pos, mulla, svælingsbylur, geyfa...

En hvað gerðist svo? Hitamet falla í hverjum mánuði. Í  Rússlandi hefur hitastigið verið sex til sjö gráðum hærra en í meðalári og í Alaska og á norðvestursvæðum Kanada er meðalhitinn um þremur gráðum hærri. Aðrir vísar um hlýnun jarðar eru einnig í hámarki. Magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti mælist meira nú en áður og íshettur pólanna halda áfram að bráðna og þynnast. Þó að hlýnun um eina gráðu hljómi ekki mikið þá er reyndin önnur. Örar breytingar hafa ekki einungis áhrif á hitastig og lífríki á pólunum, í Rússlandi eða Alaska, heldur tekur nærumhverfið einnig breytingum, veðurfarið er annað og orðaforði breytist, - svo fátt eitt sé nefnt. Og menn geta spurt sig hvar endar þetta? Margir vilja jafnvel líta svo á að loftslagsmál varði við þjóðaröryggi ákveðinna þjóða. - Látum við þessar breytingar ganga yfir án þess að spyrna við fótum? Er okkur sama?

Staðreyndin er að við eigum erfitt með að láta af ákveðnum lífstíl.  Við erum föst í afneitun og sérhlífni. Við breytum ekki lífsháttum okkar. Við tengjum ekki eigin lífshætti við breytingar á loftslagi, við tengjum okkur ekki við náttúruna, við viljum meira, við viljum betra. Við höfum sett upp vegg, - heilan múr, milli manns og náttúru. Við spáum ekki í hvað verður að tækjunum sem við kaupum; brauðristinni, þurrkaranum eða þvottavélinni sem við getum ekki eða nennum ekki að nota lengur. - Við leiðum ekki hugann að framleiðsluferlinu. Við viljum betra og flottara.

Ef til vill er stærsti og djúpstæðasti vandinn sem mannkynið stendur frammi fyrir að breyta eigin hugsunarhætti. Að skilja að ekki er hægt að setja verðmiða á náttúruna; fuglasönginn, bláa lit sjávar, græna lit grassins, ferskan andblæinn eða hvítan snjóinn. Að skilja að þetta er allt í okkar höndum. Kannski er kominn tími til að líta í kringum sig og skoða málin í víðara samhengi.

...ekki er hægt að setja verðmiða á náttúruna; fuglasönginn, bláa lit sjávar, græna lit grassins, ferskan andblæinn eða hvítan snjóinn.

Rýnum enn og aftur í ríkan orðaforða Íslendinga. Þau verðmæti sem felast til dæmis í því að geta lýst snjónum og umbreytingum hans. Við getum velt því fyrir okkur hvort börn nútímans læri að þekkja stigsmun þessara orða eða hvort þau kynnist yfirleitt þessum orðum. Við getum velt því fyrir okkur hver kostnaðurinn er, hversu stór hluti af menningu okkar hverfur með því einu að afkomendur okkar viti ekki eða skilji ekki orðið mulla. Margir yppa öxlum og hugsa að þetta sé svosem ekki stór mál, önnur orð verði til í staðinn. Orð sem tengjast tölvum, orð sem tengjast tækni….svo verða ef til vill orð eins og gervisnjór, framleiddur snjór eða villtur snjór (villisnævi) komandi kynslóðum tamari og við getum spurt okkur hvort að við séum á raunverulegum villgötum. - Hvort að vandamálið sé raunverulegt?
 

Snjoskilti.jpg

Miðað við þær upplýsingar sem við fáum er vandamálið til staðar og vandinn djúpstæður. Hlýnun sjávar hefur áhrif, ekki bara á jökla Íslands heldur einnig á kóralrif, ísbirni, hafstrauma og fiskigengd. Hann kemur fram í okkar daglega lífi, ekki einungis í breyttu orðfari eða meiri umhleypingum, hann mun koma fram á fleiri sviðum og í víðara samhengi eftir því sem árin líða og það er og verður aðeins í okkar höndum að breyta eigin háttum, ekki einungis hugsunarhætti heldur einnig lífshætti. - Líta okkur nær og hugsa okkur sjálf sem hluta af stærra gangverki. Allt byrjar þetta hér og nú með okkur sjálfum í litlum skrefum.