Vetrarhlaup á vetrarsólhvörfum

Dagur eða nótt, varla hægt að greina muninn þar á. Nóttin svo óendanlega löng. Vetrarsólhvörf marka skemmsta dag ársins, svo fer daginn að lengja, upphaf og endir kalla á ný markmið, önnur plön, nýja byrjun.

Frost og kuldi, snjóskaflar og ruðningar. Stemmningin ísköld, næðingur að norðan og hálkublettir. Veturinn skreyttur fannafeldi, endalaus nótt við nyrsta haf. Sólin hefur sig lítið frammi, nær ef til vill að gylla hæstu toppa fegurstu fjalla yfir há daginn. Vinnan göfgar manninn og landinn gefur ekkert eftir, fólk á þönum, í nægu að snúast. Lítill tími til að láta hugann reika, íhuga hvert skuli stefnt.

Jólaljós prýða borg og bæ, ljóstýrur í glugga. Huggulegt á að líta, m.a.s. lyktin er önnur, meiri matur; kökuilmur, fiskur, kjöt. Svo er eins og þráin hellist yfir mann, þörfin fyrir að komast út, anda að sér frísku lofti, finna fyrir norðanstrekkingi, takast á við vind, kulda og umhleypingar. Lífið býður sjaldnast upp á lognmollu.

Svo er eins og þráin hellist yfir mann, þörfin fyrir að komast út, anda að sér frísku lofti, finna fyrir norðanstrekkingi, takast á við vind, kulda og umhleypingar.

Stundum þarf ákveðið átak eða hugarfar til að koma sér út úr hlýju húsi en oftar eru hlaupaskórnir reimaðir með brosi á vör og eftirvæntingu. Fátt jafn notalegt eins og að hlaupa út í veturinn á þessum stutta degi, eins og ákveðin hugarró felist í því að hlaupa og láta hugann reika á sama tíma. Skóbúnaður við hæfi; naglar eða broddar. Þunnir ullarsokkar, húfa, vettlingar og ekki úr vegi að smeygja sér í þunn ullarnærföt, hlaupajakkinn næfurþunnur. Endurskin eða ljós, nauðsynlegt að vera sjáanlegur í vetrarmyrkrinu.

Staðset mig þegar út er komið, tek upplýsta ákvöðun um hvert skuli halda, austur, vestur, norður, suður. Allt fýsilegir kostir. Mér verður litið upp í vetrarhimininn, gráblá birtan og kærleiks sól.  Ákveð að hlaupa á móti norðvestan áttinni, ærslafull og frek, ég má hafa mig alla við. Hleyp út fyrir bæjarmörk, bóndabæir fallega skreyttir jólaljósum, fossar klæddir klakabrynju, fjörðurinn ísilagður. Í dag hleyp ég á malbikinu, tel mér trú um að í því felist minni átök, léttara að láta hugann reika.

Þungur umferðaniður, bændur í bæjarferð en alltaf friðsælt í sveitinni, eins og tíminn standi í stað. Hressandi ilmur frá stæðilegu kúabúi, stórbændur í girðingavinnu. Smám saman lætur máttlaus sólin undan, myrkrið gleypir mig og ég ákveð að snúa við. Nú einfaldast málið, eins og allt detti í dúnalogn, ég hleyp með vindinn í bakið.

Ég má reyndar hafa mig alla við í umferðinni, reyni að sýna skynsemi innan um bíla á löglegum hraða, þakka mínum sæla fyrir endurskinsvestið og varpa öndinni léttara þegar ég sveigi út af aðalbraut og inn á minna farinn veg. Áfram held ég, finn léttinn og gleðina, ekki frá því að nú hellist yfir mig kraftur. Á meðan ég hleyp hugleiði ég árið sem senn er á enda, spái í nýtt  ár sem breiðir út faðminn, markmið og plön. Hvað langar mig? Hvert stefni ég? Læt hugann reika, gott að eiga stund með sjálfum sér.

Á meðan ég hleyp hugleiði ég árið sem senn er á enda, spái í nýtt ár sem breiðir út faðminn, markmið og plön. Hvað langar mig? Hvert stefni ég?

Þessi stutti dagur senn á enda. Vegbúar við nyrsta haf ganga nú á móti sólu. Nýtt ár bíður handan hornsins með ný fyrirheit og ný ætlunarverk, allt í mínum höndum.