Hrífandi hvati

Stundum leiðir maður hugann að því hver hinn eiginlegi hvati er. Hvað gefur þá andlegu næringu að lífið verði þess virði að lifa og við tilbúin til að prófa, þora og halda svo áfram? - Hvað fær mann til að gefast ekki upp?

Fyrir marga heillar að kúra í sófa, renna yfir mörk vikunnar eða skella í sig einum tebolla. Allt gott og gilt, en stundum er eins og meira þurfi til. Ja, einhverskonar andlega innspýtingu. Það getur jafnvel atvikast þannig að það sem drífur mann áfram einn daginn, virki svo ef til vill ekki hinn daginn, örlítið flókið. Svo kemur jafnvel á óvart þegar það uppgötvast að drifkrafturinn eru smáatriðin, sem láta lítið yfir sér en skipta svo óskaplega miklu máli. Maður endurskoðar sig, lítur til baka og rekst, sér til mikillar furðu, á einhver hughrif, ástand eða atvik sem höfðu mestu áhrifin á þessum tíma og á þessari stundu.

Svo kemur jafnvel á óvart þegar það uppgötvast að drifkrafturinn eru smáatriðin, sem láta lítið yfir sér en skipta svo óskaplega miklu máli.

Skagafjörður svo langt sem augað eygir, Drangey og endalaus víðáttan. Hrímkalt haust, ekki ský á himni, gráir tindar sem sól nær að gylla, brakandi frost og stilla. Tíminn stendur í stað. Víkingar, hetjur, biskupar og sárafátækur almúginn, sögusvið Íslendingasagna. Stórorrustur og barátta þjóðar í harðindum.

Jú, hlaupaleiðirnar óendanlega margar, möguleikarnir óþrjótandi. Sveitin breiðir út faðminn, býður upp á það besta í íslenskri náttúru.

Í dag hleyp ég frá Hólum í Hjaltadal, þessum fallega kirkjustað, stórveldi Guðmundar góða, hér stundaði hann meinlætalíf, hugaði að þeim sem minna máttu sín, blessaði menn og vígði brunna. Fallegt um að litast í Skagafirði. Einhverju sinni hitti ég þarna tvo gamla bændur sem létu þau orð falla að þarna væri ég stödd í dalnum sem guðirnir elska, nú hættir bústörfum en þráin til þessa fallega dals ennþá til staðar. Ég herði sprettinn, hleyp framhjá Efri-Ási, tuddar í gerði sáttir við sitt, grastugga og endalaus sveitin. Hjaltadalsá liðast áfram, máðir steinar, klakahröngl við grösuga bakka.

Einhverju sinni hitti ég þarna tvo gamla bændur sem létu þau orð falla að þarna væri ég stödd í dalnum sem guðirnir elska, nú hættir bústörfum en þráin til þessa fallega dals ennþá til staðar.

Ég held takti, lít í átt að Sleitustöðum og sé hestastóð koma úr mynni Kolbeinsdals. Þungur dynur, mökkur og kóf. Menn og konur, viljugir hundar hlaupa við fót. Sperrt hross rekin af fjalli: hryssur, folöld og tryppi. Krafturinn magnaður, óbeisluð orka, gleði og spenna. Fjöldi hesta, jarpir, mósóttir, leirljósir og brúnir. Fósturlandsins freyjur, bændur og búalið. Ég held mig á hestaslóða og tek stefnuna á Krókinn og sé þá að stóðið er rekið í sömu átt.

Velti því fyrir mér eitt andartak hvort að nærveru minnar sé óskað eða hvort ég eigi að láta mig hverfa, - hlaupa í burtu. Tek svo ákvörðun, krafturinn heillar mig.

Saman tökum við sprettinn ég og hrossin. Óendanleg vellíðan. Ég hleyp, finn að hestarnir skeyta því engu þó ég mási og blási við hlið þeirra. Skipanir gefnar, hrossin skipta um takt, sum staldra við og fá sér tuggu, en ég held áfram, hleyp.


Skagafjörður heillar, íslenski hesturinn vinsælt myndefni og jú útflutningsvara. Ferðamaður staldrar við, myndavél með digri linsu dregin fram, an Icelandic Pony fögur sjón á íslenskri foldu.

Sjaldan fundið annan eins kraft, takt, hrynjandi, hljómfall, eins og að stíga dans við almættið. Margir kílómetrar að baki, ég í algleyminu og hrossin stefna í réttina hvert af öðru, mikið at. Menn safnast saman, nú skal dregið í dilka. Ég læt vera að skipta mér af hrossarekstrinum, enda ekki mitt sérsvið. Held mínum takti, nikka og veifa dugmiklum knöpum, svona eins og til að þakka fyrir mig. Hamingjusöm, alsæl og full af orku, hleyp ég áfram. Krafturinn, hvatinn og hughrifin ógleymanleg.

Einstök upplifun á þessum stað og á þessum tíma, aldrei endurtekin en það eru einmitt svona stundir sem eru ógleymanleg hvatning.