Burt með börnum - lagt upp í langferð

Að ferðast um Ísland með börnum getur verið afskaplega skemmtilegt og gefandi. Þá má í augum barna oft á tíðum sjá óbifandi áhuga, viðkvæmni og sannan fróðleiksþorsta. Margt vekur eftirtekt og ýmislegt er forvitnilegt. Í sumum tilfellum geta þau jafnvel gefið fullorðnum aðra sýn á land, þjóð og menningu; opnað augu og veitt innsýn inn í það sem hefur verið okkur áður hulið.

Skeljar úr fjörunni - Breiðafjörður

Skeljar úr fjörunni - Breiðafjörður

Áður en lagt er upp í ferðalag með börnum er gagnlegt að setjast niður og spá í hvert skuli haldið. Þá er ekki úr vegi að gera sér far um að komast að því á hverju þau hafa mestan áhuga. Það þarf að taka ákvarðanir um hvernig ferðalaginu skuli háttað; á að tjalda, gista í bændagistingu, á að ganga ákveðnar dagleiðir eða á að keyra á milli staða? - Allt eru þetta mikilvægar spurningar sem hlutaðeigendur þurfa að velta fyrir sér. Þá getur til dæmis verið skemmtilegt að ákveða að skoða fjölbreytt dýra- og plöntulíf, tengja einstaka landshluta við þjóðsögur og/eða að velta fyrir sér staðaheitum og tengja við Íslandssöguna eða Íslendingasögur.

Ekki er úr vegi að leita upplýsinga áður en lagt er upp í ferðalagið; pakka niður uppflettiritum eða ljósrita, grennslast fyrir um þjóðsögur og kippa með sér landakortum, þannig stendur maður betur að vígi þegar smáfólkið ber upp grundvallarspurningar um land og þjóð. Vissulega er hægt að finna ýmsan fróðleik á netinu en oft þykir meira spennandi að grúska í bók eða bókum. Stórar skýringamyndir heilla og ekki er minna skemmtilegt að bogra yfir einhverju ritverkinu eða landakorti með mömmu og/eða pabba.

Vissulega er hægt að finna ýmsan fróðleik á netinu en oft þykir meira spennandi að grúska í bók eða bókum. Þá er um að gera að draga börnin með, gera þau virk bæði við undirbúning ferðarinnar og í ferðalaginu sjálfu.

Hlustaðu vel á vindinn
víst er hann stundum fyndinn.

Finndu regnið falla
og flæða um beran skalla.

Horfðu á fjallið háa
í hjúpinu sínum bláa.

Líttu á trén sig teygja
og toppana sína reigja.

Sjáðu grasið græna
gott er í það að spræna.
— Þórarinn Eldjárn

Þá þykir skemmtilegt að sjá dýr í sínu upprunalega umhverfi og tengja við myndir af hinu sama í bók. Mestu máli skiptir að draga börnin með strax í upphafi; gera þau virk, bæði við undirbúning ferðarinnar og í ferðalaginu sjálfu. Strax í upphafi þarf að hafa ýmislegt í huga svosem tímabilið sem ferðalagið á að ná yfir, landsvæði sem koma til greina og hugsanlegar veðurteppur (veður sem setja strik í reikninginn geta breytt öllu skipulagi) og að síðustu ákjósanlegan búnað.

Á Íslandi búum við svo vel að hafa beinan aðgang að villtu dýralífi og því um að gera að nýta sér það. Fjöruferð með börnum getur til dæmis verið spennandi verkefni. Grjót, skeljar, þang og þari heilla marga og ekki spillir fyrir ef einmanna selur kíkir upp úr fjöruborðinu. Mikilvægt er að gera sér far um að rýna í ströndina, grýtta fjöru og jafnvel út á sjó og það sama á við um fjalllendi, heiðar og dalverpi. Heppnin getur verið með manni; tófa á hlaupum, smáhveli á sundi eða flóttalegur minkur í fjöruborðinu, - öll dýr geta vakið spennu og áhuga.

Í eltingaleiknum Prins Póló á Hornströndum

Í eltingaleiknum Prins Póló á Hornströndum

Börn njóta þess oft á tíðum að snerta og prófa. Þau leitast við að taka áhættur og fara oft út fyrir ímyndaðan þægindaramma í ferðalaginu eða í útilegunni. Þá þykir þeim fátt jafn skemmtilegt eins og að sjá foreldra sína kljást við íslenska náttúru sem getur verið stórbrotin, óárennileg og töfrandi. Leiðindaveður geta jafnvel orðið hrífandi; spennan sem felst í því að klæða sig vel, stígvélin sem nota þarf í pollana og hvassviðrið sem tekur í tjaldið, - allt getur vakið áhuga.

Þá þykir þeim fátt jafn skemmtilegt eins og að sjá foreldra sína kljást við íslenska náttúru sem getur verið stórbrotin, óárennileg og töfrandi.

Á síðustu dagleið, á Látraströndinni.

Á síðustu dagleið, á Látraströndinni.

Í beinu framhaldi af þessu er mikilvægt að minna foreldra á að loka ekki augunum fyrir þeim möguleikum sem Ísland hefur upp á að bjóða þegar kemur að því að skipuleggja fríið. Sumir treysta sér ef til vill ekki til þess að fara einir í langferð um landið með börnum eða hafa ekki kunnáttu til, en á Íslandi hafa einhverjir ferðaþjónustuaðilar boðið upp á útilegur og ferðir fyrir börn og fjölskyldur og um að gera að nýta sér þá þjónustu. Þá getur líka verið gagnlegt að leita ráða hjá vönum og reyndum ferðalöngum, fletta upp í bókum eða tímaritum eða vafra á netinu. Allt þarfnast skipulags og yfirsetu áður en lagt er af stað.