Fyrir sunnan söl og þara...

Einn og einn bíll liðast um þjóðveginn. Hvítasunna framundan. Hefðbundið íslenskt vorveður; gjóla, skúrir á víð og dreif og sólin kíkir fram úr skýjunum endrum og sinnum. Hvíld yfir þessa fyrstu “ferðahelgi sumarsins” sannkallað tilhlökkunarefni, útivist og gleði. Fámennur fjörður og góðir vinir, eðal blanda og góð uppskrift að úrvals helgi.

IMG-1506.jpg

Vatnsfjörður er um 9 km langur, hann er breiður í mynni og þrengist innar. Í miðju fjarðarmynninu er Engey. Inn af firðinum gengur Vatnsdalur. Vatnsfjörður var gerður að friðlandi árið 1975 og njóta leirur á svæðinu sérstakrar verndar. Friðlandið er í landi höfuðbólsins Brjánslækjar og eyðijarða sem liggja undir því. Mörk friðlandsins eru við Þverá að vestan, síðan er í grófum dráttum fylgt vatnaskilum um Hornatær og Dynjandisheiði norður í Glámu. Þaðan suður á Þingmannaheiði og suðvestur í Hörgsnes sem markar fjarðarmynnið að austan.

IMG-1534.jpg
IMG-1552.jpg

Ýmislegt er hægt að dunda í Vatnsfirði og í raun geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Í Vatnsdalsvatni er til dæmis hægt að veiða. Bestu veiðistaðirnir eru við árósa og útfall vatnsins. Jafnframt eru veiðistaðir á Viteyri, sem er fyrir miðju vatninu vestan megin og Kofanesi, sem er fremst í vatninu. Um 30 mínútna gangur er að Lambagilseyrum, austanvert við vatnið. Við strandlengjuna á þessari gönguleið eru fjölmargir veiðistaðir og þá er ekki síðra að fá sér göngutúr meðfram vatninu. Ungur drengur freistar þess að fanga þann stóra á meðan mæðgur skottast í göngutúr meðfram gróðursælu vatninu.

Brjánslækur stendur við Vatnsfjörð, fornt höfuðból og kirkjustaður. Á Brjánslæk er bryggja og þar er viðkomustaður Flóabátsins. Í Surtarbrandsgili, ofan Brjánslækjar, eru í millilagi í blágrýtislögum varðveittir einhverjir allra fegurstu plöntusteingervingar sem þekkjast. Þetta eru einkum blaðför af ýmsum kulvísum trjátegundum, svo sem hlyn, álmi, plantanvið, greni, furu og fleiri tegundum, sem benda til þess, að loftslag hér á landi hafi á vaxtartíma þeirra verið svipað og nú er í Suður-Evrópu. Þá er ekki úr vegi að fara í náttúrulega sturtu sem steypist niður af blágrýtisklettunum, þó að vatnið gefi lítinn yl.

Strandlengjan býður upp á óendanlega möguleika, þar má finna úrval þörunga ásamt fjölda smádýra. Töluvert er um vötn og tjarnir á svæðinu og heitar uppsprettur leynast víða og ekki er úr vegi að skella sér í sundföt eða fara í fótabað á heillandi vordegi.

Dýralíf í Vatnsfirði er nokkuð fjölbreytt, þótt fjöldi einstaklinga sé sjaldnast mikill.

Um tuttugu tegundir fugla halda sig í friðlandinu. Mikið er af æðarfugli á firðinum og straumönd fram eftir sumri en miðsumars verður lómurinn einkennisfugl svæðisins. Örn og fálki eru oft á ferðinni en verpa þar sjaldan. Nokkuð er um hagamýs, ref og mink en auðveldara er að koma auga á selina sem gjarnan flatmaga á skerjunum við Hörgsnesið. Svo má að sjálfsögðu sjá þar hrafna á flugi, þó ekki séu það hrafnar Hrafna - Flóka.

IMG-1508.jpg

Þá hafa stígar verið stikaðir í Vatnsfirði á undanförnum árum og tilvalið að ganga, hlaupa eða hjóla um land Hrafna-Flóka og kanna svæðið á þann hátt. Undirlagið er víðast ágætt yfirferðar fyrir stóra og smáa. Dagur á hjóli er til dæmis skemmtileg tilbreyting.

Eftir langa og fjölbreytilega skemmtun í Vatnsfirði er nú snúið heim á leið. Allir fengu þar eitthvað fyrir sinn snúð. Merkilegast þykir þó að aldrei líkaði Hrafna - Flóka veran í þessum fallega gjöfula firði. Enda gleymdi maðurinn sér við veiðar yfir sumartímann sem varð til þess að undirbúningur fyrir langan og strangan vetur fór forgörðum og kuldinn og vosbúðin fór illa í landnámsmanninn sem var vanur öðru loftslagi. Veran í Vatnsfirði fór hinsvegar vel í þúsaldarnútímafjölskyldu enda af nógu að taka fyrir börn á öllum aldri.