Girðingarstaurar bera býlinu vitni...

Upphaf skóg- og trjáræktar í Kjarnaskógi má rekja til ársins 1946, þegar Skógræktarfélagið fékk þar land fyrir gróðrastöð. Enn er hún starfrækt þar en nú á vegum einkafyrirtækisins Sólskóga.

Þess má geta að í upphafi var svæðið skóglaust með öllu, smám saman tókst þó að rækta og friða þau tré sem gróðursett voru og 1972 tók Akureyrarbær við rekstrinum og gerði skóginn að útisvistarsvæði Akureyringa í samstarfi við Skógræktarfélagið.

IMG-0658.JPG

Margsinnis hafa girðingar um Kjarnaskóg verið færðar út. Unnið hefur verið að ræktun samfellds skógar frá gamla Kjarnaskógi í suðri allt norður að Glerá, ofan byggðarinnar og eins hátt í hlíðarnar og skilyrði leyfa. Margir gera sér ekki grein fyrir því hversu langt skógurinn teygir sig en óhætt er að fullyrða að landið sem undir hann er lagt hefur verið vel nýtt á undaförnum árum. Ríkjandi tjátegundir í skóginum eru birki og lerki.

IMG-0679.JPG

Aðstaða til útivistar er sérstaklega góð í Kjarnaskógi. Leikvellir, trimmtæki, upplýst trimmbraut með skíðaspori á vetrum og svo mætti lengi telja. Gott kerfi göngustíga liðast um skóginn. Auk þess er þar yfirbyggð grillaðstaða, fyrsta sérhannaða fjallahjólabraut landsins og ótal spennandi göngustígar.

IMG-0666.jpg

Í æsku var Kjarnaskógur nýttur til að fara á gönguskíði og einu sinni man ég eftir því að hafa verið þar á skátamóti. Þá lagði maður gjarnan leið sína í gegnum skóginn þegar lagt var upp í gönguferðir eða helgarferðir í útileguskálann Gamla, sem er í eigu Skátafélagsins Klakks og staðsettur er í um 250 m fyrir ofan skóginn. Þá ómuðu klettarnir, sem ramma skóginn inn, af barnaröddum þeirra sem stigu sín fyrstu skref í klettaklifri og oft eyddi maður mörgum stundum í að síga í klettana og glíma við grjótið.

IMG-5799.jpg

Efri leiðin frá Akureyri og suður í Kjarna heitir Naustaborgir þar er mikil náttúrufegurð, menningarminjar og fuglaskoðunarhús. 

Þess má geta að enn í dag má finna nýjar og ókannaðar leiðir í Kjarna. Skógurinn býður upp á endalausar uppgötvanir allan ársins hring og það er sérstaklega gaman að leiða börn á öllum aldri um skóginn þar sem þau geta gleymt stað og stund í marga tíma við hverskonar leik.

Eftir langan vinnudag er fátt betra en að komast í gott skjól og njóta kyrrðarinnar í Kjarnaskógi sem er eitt af stærstu og vinsælustu útivistarsvæðunum í nágrenni Akureyrar og þennan dag nýt ég kyrrðar og einveru á þessum fallega stað.