Segulmagnaða Sara

Sara ólst upp á flatlendinu í Vogum á Vatnsleysuströnd ásamt bræðrum sínum. Fjölskyldan var á faraldsfæti vetur, sumar, vor og haust. Þau áttu breyttan jeppa og mikið var ferðast um hálendið á sumrin og reyndar líka á veturna. Fyrst svaf fjölskyldan í gamaldags A-tjaldi eins og þá tíðkaðist, en síðar eignuðust þau tjaldvagn sem allir voru alsælir með.

Þá var ég dregin um fjöll og firnindi á skíðum. Á þessum tíma áttu ekki margir skíði í Vogunum. Ég fékk fyrstu skíðin mín þegar ég var sex ára. Pabbi keypti þau í Bandaríkjunum. Ég var rígmontin og þrammaði um á plönkunum og átti það til að dvelja löngum stundum á eina hólnum í bænum, Ríkishólnum.  

Sara 7.jpg

Nokkru síðar fékk Sara notuð keppnisskíði að gjöf og þá var ekki aftur snúið, snjór og skíði áttu hug hennar allan. Þá bættust fleiri áhugamál við. Sara var mikið á skautum. Við  æskuheimilið var tjörn sem lagði á veturna en stundum nægði henni ekki einungis að skauta á tjörninni og þá voru þessir dýrgripir teknir með í skólann líka.

Það voru margir á skautum og maður bara einhvern veginn ólst upp við þetta.


Foreldrar Söru létu til sín taka í útivistinni, þau áttu stóran vinahóp sem ferðaðist mikið. Margar helgar voru nýttar í útilegur með góðum vinum og þar má segja að grunnurinn hafi verið lagður.


Við fermingu flutti fjölskyldan til Grindarvíkur. Ég var í 8. bekk og hafði brennandi áhuga á hreyfingu og útivist.

Áhuginn á hreyfingu og útivist var fyrir hendi öll unglingsárin eða fram að því að Sara flutti til Akureyrar árið 2004. Hún rifjar meðal annars upp langar ökuferðir upp í Bláfjöll með bróður sínum, bara til að komast á skíði.

Í gamla daga fór maður í rútu upp í Bláfjöll, frá Stapa og þegar ég flutti til Reykjavíkur keyrði ég bróður minn upp í Bláfjöll eða Skálafell og þetta fannst mér ekkert tiltökumál.

Eftir framhaldsskólann ákvað Sara að flytja til Akureyrar. Frá upphafi var hugmyndin sú að vera nær skíðasvæðinu Hlíðarfjalli.

Þegar ég hlutstað á útvarpið heyrði maður að allir grunnskólar væru lokaðir vegna snjóa. Það fannst mér heillandi. Ég sá það í hillingum að geta verið á skíðum á hverjum degi og hélt í rauninni að Akureyringar stunduðu skíði meira en þeir raunverulega gera.

Sara hóf nám í viðskiptafræði í Háskólanum á Akureyri með ferðaþjónustu sem aðalsvið. Upphaflega þekkti hún engan á Akureyri, hún hafði fengið gott boð um húsnæði en þegar til kom var hún svikin. Þá keyrðu þau feðginin til Akureyrar skoðuðu tvær íbúðir og gerðu tilboð í aðra. Sara seldi krossarann sem hún átti á þessum tíma upp í íbúðina sem hún svo keypti.

Sara 6.jpg

Fljótlega eftir að Sara flutti til Akureyrar kynntist hún góðri vinkonu og hefur haldið þann vinskap síðan. Saman byrjuðu þær í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, og voru mjög virkar í öllu starfi sveitarinnar. Í björgunarsveitinni kynntist Sara eiginmanninum, Mumma, en á bakvið hann er stór vinahópur sem Sara varð hluti af. Þessi stóri hópur heldur enn saman og hefur alltaf gert mikið af því að ferðast um Ísland á hjólum, skíðum, keyrandi eða fótgangandi.Þegar Sara er spurð að því hvort að það hafi aldrei komið til tals að flytja aftur á suðvestur hornið, segir hún.

Ég gæti ekki hugsað mér að fara frá þessu öllu. Það er bara vesen að vera í Reykjavík, endalaus keyrsla með skíði og hjól. Hér get ég gert það sem ég hef áhuga á og stuttar fjarlægðir á milli staða.

Sara dró sig hinsvegar verulega út úr öllu starfi björgunarsveitarinnar þegar hún var greind með krabbamein 34 ára gömul. Þá var hún búin að vera með leitarhund í átta ár, hafði verið starfandi í í svokölluðum undanförum sem er hópur sérhæfðs fjallabjörgunarfólks sem hefur mikla reynslu af fjallamennsku og auk þess hafði hún umsjón með nýliðaþjálfun sem er afar tímafrek. Ekki nægði þetta vegna þess að Sara gaf einnig kost á sér í stjórn Súlna um nokkurra ára bil. Hinsvegar fann Sara um áramótin 2017 - 2018 að það var nóg komið og hún ákvað í samráði við lækni að fara í veikindaleyfi og hægja á. Hún er hinsvegar ennþá meðlimur björgunarsveitarinnar en tekur ekki jafn mikinn þátt í daglegu starfi. Hún hefur verið að kenna í Björgunarskólanum og sinnir því starfi af alúð og hefur þar umsjón með ferðamennsku og rötun. Björgunarskólinn er starfræktur frá Reykjavík og er rekinn á vegum Slysavarnarfélagsins. Starfsfólk skólans hefur umsjón með kennslu alls björgunarsveitafólks á landinu.

Við bjóðum upp á námskeið og kennum líka eftir pöntunum. Ég er búin að kenna þarna  síðan 2013. Svo hef ég líka tekið að mér snjóflóðakennslu en Mummi hefur verið að sérhæfa sig í mannlega hlutanum þar.

Þegar Sara er spurð að því hvernig skíði, bretti, hjólreiðar og fjölskylda fari saman er hún ekki lengi að svara.

Fyrst vorum við bara tvö það var mjög einfalt, svo aðeins flóknara en nú ennþá flóknara þegar við erum orðin fjögur. Jökull sem er 10 ára að verða 11 kemur með okkur í nánast allt. Hann er duglegur strákur og getur hjólað og rennt sér eins og fullorðinn maður. En þetta er annað með Heiðu sem er þriggja ára, þar þarf maður að stilla sig pínu af. Það getur til dæmis tekið þrjár tilraunir að koma henni í fjallið. En það er alltaf jafn dýrmætt að eiga þessa stund með börnunum sínum.

Hvað með hjólreiðaáhugann? - Hvaðan kemur hann og hvernig? Sara svarar því til að þau Mummi séu í Hjólreiðafélagi Akureyrar og þar sé mjög virkur hópur hjólreiðafólks. Svo varð þróunin sú að þeim datt í hug að taka þátt í WOW-Cyclothon. Þau hafi reyndar gert það þrisvar sinnum og tilfinningin alltaf jafn ánægjuleg. Og áfram heldur Sara...

Ég var að vinna í kringum WOW-ið og fylgdist með þessu. Mér fannst spennandi að hjóla alla nóttina og náði að plata tíu vini með mér. Við áttum ekki racer en það voru einhverjir tveir í hópnum sem áttu svoleiðis hjól og við ákváðum að deila þessum tveimur hjólum með okkur. Þetta var ótrúlegt, allt gert fyrir ánægjuna og skemmtunina. Sumir voru jafnvel að læra á gíra í fyrsta skipti.

Þriðja árið ákváðum við svo að hjóla aftur. Þá hafði ég greinst með krabbamein og saman ákváðum ég og góð vinkona mín sem líka greindist með krabbamein að stofna keppnislið, svona spandex-lið og það var alvöru. Okkur fannst þetta góð hugmynd. Þessi vinkona hét Edda Björk en hún er nú látin. Í upphafi vorum við ákveðnar í að hægja aðeins á okkur og að okkar mottó yrði: Að njóta en ekki að þjóta. Í Wow-inu ákváðum við til dæmis að stoppa í Mývatnssveit og fara í Jarðböðin til að allir gætu notið.

Sara og Jökull, sem á hjólreiðaáhugann sameiginlegan með mömmu sinni.

Sara og Jökull, sem á hjólreiðaáhugann sameiginlegan með mömmu sinni.

Sara útskýrir að upp úr taumlausum hjólreiðaáhuganum hafi svo sprottið svokallað kven-Enduro sem er flokkur kvenna sem æfir saman fjallahjólreiðar á Akureyri. Þessar konur hjóla á fulldempuðum carbon hjólum og gefa karlmönnunum ekkert eftir. Konurnar hittast reglulega allt árið, hjóla saman og skemmta sér. Þá hafi ung kona frá Póllandi, Emilia Niewada, tekið það að sér að leiðbeina hinum og það sé dýrmætt fyrir félagið að hafa svo hæfileikaríka unga konu innan sinna vébanda. Auk þess hafa þær fengið fleiri leiðbeinendur til að koma á æfingar til að kenna þeim til dæmis hvernig á að bera sig að við að skipta um dekk, gera við hjólin og fleira í þeim dúr.Sara útskýrir að konur séu í auknu mæli að stíga út fyrir þægindarammann og treysta á sig sjálfar, þá séu börnin jafnvel líka farin að mæta á æfingar. Talið berst þá að græjunum og hún útskýrir að vissulega séu mörg hjólin dýr og auk þess fylgi að kaupa brynjur, hjálma, hlífar og fleira sem skiptir máli upp á öryggi. Þetta er hinsvegar oft hægt að kaupa notað og maður verður alltaf að setja öryggið í fyrsta sætið. Það er gaman að keppa á Enduro-mótunum en keppnin snýst í rauninni meira um það að vera með. Oftast eru þetta langir keppnisdagar þar sem fólk þarf að fara í gegnum nokkur tímatökuhlið. Þá hafa Enduro-keppnir verið haldnar víða um land og fer nú fjölgandi. Sara hefur hinsvegar líka keppt í svokölluðu niðurklifri (downhill) á hjóli og í fyrsta skiptið var hún ein fárra kvenna sem stundaði þessa íþrótt.

Berst nú talið að Crossfit en Sara hefur einnig verið öflug á því sviði.

Ég byrja á einhverju, ég er all-in og svo finnst mér ég þurfa að prófa að keppa. Allt í einu var ég farin að æfa mig að standa á höndum. Svona eins og litlu börnin gera og hanga á slá og þetta fannst mér gaman. Það er skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt. Í dag hef ég ekki tíma í þetta allt saman. Ég verð að velja og hafna. Stundum mæti ég í Crossfit í hádeginu en útiveran tosar alltaf meira í mig. Í seinni tíð er ég farin að huga að því að það þarf ekki alltaf að keppa. Það er líka hægt að taka þátt og njóta en ekki þjóta, oftar og oftar er ég farin að hugsa á þann hátt. Ég er hinsvegar ofvirk og með athyglisbrest og get ekki farið í sumarbústað og gert ekki neitt. Ef ég er í fríi er ég alltaf óróleg en ég verð að sjálfsögðu að reyna að lifa með þessu.

Sara útskýrir að stundum sé erfitt að finna hinn gullna meðalveg en að það hjálpi að fjölskyldan hafi sama áhugamál og þá geti allir tekið þátt og verið saman. Allir hafi gaman af því að ferðast, hjóla og vera á skíðum eða bretti og það sé dýrmætt. Í framhaldi af því spyr ég hana hvort að hún sitji við skriftir fyrir gamlárskvöld og setji sér markmið fyrir nýtt ár. Sara segist lítið hugsa um markmið en jú vissulega eitthvað örlítið. Hún viðurkennir að vera keppnismanneskja og það trufli vissulega stundum. Hún segir frá krabbameinsmeðferðinni og að einmitt þar sé oft gott að setja sér markmið og prófa eitthvað nýtt.

Ég byrjaði reyndar að vinna allt of snemma eftir meðferðina og svo kom það allt í bakið á mér. Ég þurfti að setjast niður með sálfræðingi og lista þetta. Sleppa hlutum og það er ákveðin áskorun fyrir manneskju eins og mig. Enn er ég að fara yfir listann og hugsa um hvað ég vil og hvert ég stefni. Ég er að reyna að sigta út. Það er lærdómur og ég þarf hjálp við. Það að forgangsraða getur verið flókið. Ég hélt að ég gæti orðið sama manneskjan og áður án þess að vinna neitt í sjálfri mér en ég þurfti að hugsa þetta allt upp á nýtt. Ég get ekki orðið jafn góð og ég var áður og allt tekur lengri tíma. Nú er ég farin að hugsa á annan hátt. Þá er líka gott að eiga góða að og Mummi hefur verið mín stoð og stytta og hefur alltaf staðið við bakið á mér og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Að lokum segir Sara frá því að fyrir áramót 2017 - 2018 hafi hún sagt upp starfi sínu á Raftákn þar sem hún hafði starfað í yfir tíu ár. Það hafi verið skref í rétta átt. Þá útskýrir Sara að hún hafi í upphafi hugsað sér að taka pásu frá vinnunni en svo bauðst henni vinna á SagaTravel og nú er hún komin í ferðabransann! - Búin að vera í rafmagni í tólf ár.

Sara 5.jpg

Sara er bjartsýn á framtíðina. - Komin á þann stað að langa til að horfa á hlutina vaxa og dafna. Horfa á dóttur mína og son stækka og þroskast, horfa á sterkar hjólreiðakonur verða enn sterkari og að taka þátt í lífinu og verða sterkari og betri manneskja. - Svo mörg voru þau orð og þar með er segulmagnaða Sara þotin út í sólina.