Ferð yfir fannir fyrir fermingarkjól

Það er kaldur febrúarmorgun og afi arkar af stað á vel notuðum tréskíðunum. Árið er 1963 og í sögunni erum við stödd í litlum bæ í Þrændalögum í Noregi.

Á þessum árum var Noregur enn í sárum eftir seinni heimstyrjöldina. Kalda stríðið stóð sem hæst, efnahagsleg kreppa hafði sett mark sitt á líf og tilveru margra í kjölfar styrjaldaráranna og enn bjó fólk við skort af ýmsu tagi og þá ekki síst íbúar í afskekktari byggðarlögum í Noregi. En lífið gekk sinn gang og nú stóð fyrir dyrum að ferma yngstu stúlkuna í barnaskaranum.

Við eldhúsborðið í rauðu tveggja hæða timburhúsi sátu eldri systkini og komu með tillögur að því hvernig hægt væri að sníða og snikka til brúkanlegan fermingarkjól handa fermingarstúlkunni. Pappírsarkir lágu á víð og dreif á borðinu með skissum af kjólum sem þóttu koma til greina. Elsta systirin fullyrti að hún treysti sér vel til þess að sauma kjólinn, ef þau hin leggðu til efni. Afi sat álengdar; hávaxinn og veðurbarinn. Með æfðu handbragði vafði hann sér sígarettu. Fyrst pappírinn, svo tóbakið, pappírsbrúnin vætt með tungunni og vafið í góðan vindling. Kveikti í, átti himneska stund og gráum sígarettureyk blásið út um bæði munnvik. Nú stóð hann upp, búinn að fá nóg af stefnulausum samræðum um kjólasíddir, kjólalit og kjólasnið og tilkynnti dimmraddaður: Ég skýst yfir til Svíþjóðar eftir kjólnum. Systkinunum varð starsýnt á föður sinn, horfðu svo hvert á annað spyrjandi. Hvernig ætlaði maðurinn að fara til Svíþjóðar, - enginn bíll til á heimilinu og lestarsamgöngur stopular?

Með æfðu handbragði vafði hann sér sígarettu. Fyrst pappírinn, svo tóbakið, pappírsbrúnin vætt með tungunni og vafið í góðan vindling. Kveikti í, átti himneska stund og gráum sígarettureyk blásið út um bæði munnvik.

En afi stóð við sitt, var maður athafna en minna fyrir orð. Fann það fljótlega út að hugsanlega þyrfti hann að redda sér til Svíþjóðar á tveimur jafnfljótum en lestarferð fengi hann tilbaka. Nokkrum dögum síðar pakkaði hann niður í snjáðan og vel notaðan ryggsekk því allra helsta og hélt af stað á skíðum.

Fyrstu klukkutímana fór afi nokkuð hratt yfir, kílómetri eftir kílómetra á endalausri eyri. Sólin gægðist fram úr skýjunum og þunn snjóhula lá yfir vetrarjörð. Hann var búinn að verða sér úti um frí í glerverksmiðjunni til að sinna erindinu og hugsaði til þess með brosi á vör hversu ánægð sú stutta yrði með nýja kjólinn. Þá lét hann hugann reika og lét sig dreyma um heimasmurðu brauðsneiðarnar sem kúrðu makindalega í bakpokanum. Hann hafði raðað niður göngudögum og álitlegu nesti, hugsað fyrir gistingu á leiðinni og auðvitað gert ráð fyrir heitum máltíðum á einhverjum tímapunkti. Og áfram hélt hann fyrst á veginum sem liggur frá Verdalsöra og í átt að hásléttunni sem aðgreinir Noreg frá Svíþjóð.

image1 (2).jpeg

Á leiðinni húkkaði hann sér far einhverja kílómetra með vel meinandi bílstjóra sem átti leið til bæjar Noregs-megin við landamærin. Þakkaði fyrir sig og hélt svo áfram út úr þessu litla þorpi. Tóbakið í brjóstvasanum, í höndunum landakort og áttaviti. Afi stefndi fyrst á skíðabæinn Åre og í beinu framhaldi á Östersund í Svíþjóð, um 250 kílómetra. Sögur fóru af því að þar væri úrvalið af kjólum óendanlegt, - annað en í Noregi.  

Þegar hann nálgaðist fjöllin ákvað hann að hætta að skíða eftir veginum og halda upp til fjalla, láta landakortið og áttavitann duga sem leiðarvísi. Leðurgönguskíðaskór og háir sokkar, grænar kvartbuxur og afi brölti í gegnum skóglendið, stundum erfitt að átta sig, en áttavitinn gerði sitt gagn. Hávaxinn furuskógur sem teygði sig upp til himins, bjarkir og birki, blaðlaus tré. Nú var farið að húma, íkornar skutust frá einum trjástofni til annars, endalaus þögn í dimmum skógi. Loks staldrað við á smá skika, álitlegu flatlendi því sem næst þúfulausu, svefnpokinn dreginn upp og serkur frá stríðsárunum sem hugsaður var til að troða svefnpokanum ofan í, til að skýla honum fyrir raka og kulda. Olíuprímus og vatn soðið í litlum potti, út í vatnið hellti svo afi tilbúinni kássu sem hann hitaði á prímusinum. Þetta gerði hann sér að góðu og lagðist svo örþreyttur til hvílu. Norska nóttin ís-köld, en hér máttu menn engan bilbug láta á sér finna og allt gert til að hvíla lúin bein fyrir átök morgundagsins og fyrir fallegan fermingarkjól.

Hávaxinn furuskógur sem teygði sig til himins, bjarki og birki, blaðlaus tré. Nú var farið að húma, íkornar skutust frá einum trjástofni til annars, endalaus þögn í dimmum skógi.

Í dagrenningu var kaffið hitað og hafragrauti sporðrennt skjálfandi höndum. Afi ákvað að haska sér af stað í kuldanum. Endalaus skógurinn. Reyndar alltaf hægt að líta á björtu hliðarnar, - skyggni með ágætum og engin úrkoma. Aðeins frostið og helköld jörðin. Loksins fór landslagið að breytast. Skógurinn varð gisnari og við tóku ávalar brekkur sem lágu upp á við. Afi brölti á skíðunum, þúfur og snjór, ekki létt yfirferðar. Loks var hann kominn upp á víðáttumikla sléttu, þá vissi hann að nú færu landamærin að nálgast. Sænsk vötn eins langt og augað eygði. Afi tók stefnuna á akveginn og freistaði þess að húkka far með einhverjum, vinnubíl eða einkabíl, sem ætti leið framhjá. Hann þurfti svo sem ekki að skíða lengi, fljótlega kom stór flutningabíll fullur af fólki og honum boðið far. Menn voru á leið í næsta bæ, Storlien í Svíþjóð. Á þessum árum var meiri uppgangurinn í Svíþjóð en i Noregi og vinnuafl gjarnan flutt yfir landamæri þessarar tveggja landa. Þá sóttu Norðmenn gjarnan vinnu yfir til Svíþjóðar. Þegar troðfullum bílnum var loks lagt við einu búð bæjarins skrönglaðist afi út, kippti skíðum og bakpoka með sér og falaðist vongóður eftir gistingu á eina gistiheimili bæjarins. Sem betur fer var til laust herbergi, afi fékk sér heitan málsverð og sofnaði vært í látlausu einsmanns herbergi.

cold-environment-forest-730480.jpg

Daginn eftir gekk á með hríðaréljum, menn fóru og komu á bílum og tvennum sögum fór af veðri. Sumir töldu það óráð að halda út í sortann á meðan aðrir fullyrtu að þetta væri ekkert! Eftir mikla innri baráttu ákvað afi að halda kyrru fyrir, safna orku og þreki og bíða af sér hríðarbylinn.

Á öðrum degi, í þessum litla bæ, skein sól hátt á lofti og hrímköld jörð klædd fannafeldi. Afi arkaði af stað í dagrenningu, úthvíldur. Ferðin sóttist vel og flatlendið virtist engan endi ætla að taka. Skógurinn langt undan og vötnin óendanlega mörg. Nú fór karlinn hratt yfir, ákvað að halda sig við veginn, ef svo heppilega vildi til að honum yrði boðið far. Kílómetri eftir kílómetra. Loks var hann kominn í útjaðarinn á stórum og miklum skógi og áfram hélt hann á mikilli ferð, þangað til hann sá sig nauðbeygðan til að stansa. Á miðjum veginum stóð stór og mikill elgur hreyfingarlaus. Í nokkur augnablik horfðust þeir í augu, afi og elgurinn, annar á skíðum og hinn á fjórum jafnfljótum. Þar til elgsgreyið stökk af stað og afi hélt áfram leiðar sinnar. Hugsaði með sér brosandi, að það veitti á gott að hitta elg á ferðum sínum.

Á miðjum veginum stóð stór og mikill elgur hreyfingarlaus. Í nokkur augnablik horfðust þeir í augu, afi og elgurinn, annar á skíðum og hinn á fjórum jafnfljótum.

Mörgum klukkutímum síðar, rétt áður en rökkrið skall á keyrðu góðlátleg hjón framhjá afa þar sem hann þeysti um á skíðunum í vegkantinum með bakpokann á bakinu. Bíllinn stöðvaður og honum boðið að setjast upp í. Svo skemmtilega vildi til að hjónin voru á leið til Östersund í afmæli hjá elsta bróður frúarinnar og buðu nú afa að vera samferða. Afi þáði boðið, stakk skíðum og bakpoka inn í bílinn og settist þakklátur í leðurklætt aftursætið, fannst hann reyndar ekki alveg passa inn í innréttinguna en lagði sig fram um að vera hjónunum skemmtileg dægrastytting.

Skemmst er frá því að segja, að þegar afi sagði söguna fylgdi því ávallt tregi að hafa þegið farið, svona eins og hann hefði hreinlega saknað þess að hafa ekki fengið að þeysast lengur um á skíðunum. En fyrir það bætti hann ávallt inn í niðurlagið löngum kafla um upplitið á fermingarstúlkunni þegar hún sá fallega bláan kjólinn og hamingjunni sem lýsti af henni á fermingardaginn og sú sýn toppaði alltaf söguna í augum afa.