Frostmáni

Nóttin hylur hálfa kringlu jarðar, desembertungl stundum kallað Frostmáni, þrælar sér efst upp í himnafestinguna og lýsir leyndu ljósi á tvær skíðaþyrstar konur sem hraða sér á skíðum og skinnum upp á brún Hlíðarfjalls, ofan við skíðasvæði Akureyringa.

Svæðið er í skál sem oftast er nefnd Reithólaskál og afmarkast af Hlíðarhrygg í suðri og Mannshrygg í norðri. Innan skálarinnar er landið skriðurunnið og hólar áberandi. Toppur Hlíðarfjalls er rúmlega 1.200 metrar en brúnin ofan Reithólaskálarinnar er í rúmlega 1.100 metra hæð. Norðan við Mannshrygg er Hrappsstaðaskál og undir henni talsvert undirlendi, nokkuð grýtt og hólótt.

Lyftur löngu yfirgefnar og hanga nú hreyfingarlausir stólar, diskar og tog í næturkyrrðinni. Skíðakonur mala í upplýstu næturmyrkri, ennisljós lýsa upp hvíta fönn, staldra við öðru hverju og dást að froststillu á íslenskri foldu. Undarlegt sambland af frosti og funa.

Skíðakonur mala í upplýstu næturmyrkri, ennisljós lýsa upp hvíta fönn, staldra við öðru hverju og dást að froststillu á íslenskri foldu.

Mynd: Berglind Aðalsteinsdóttir

Mynd: Berglind Aðalsteinsdóttir

Algengt er að skinna á skíðum eða ganga frá síðasta lyftustaur skíðasvæðisins og áfram upp á brún Hlíðarfjalls. Tvær leiðir eru oftast farnar. Í fyrsta lagi svokallaður Sneiðingur. Þá er farið upp á Stallinn fyrir ofan lyftur skíðasvæðisins og svo áfram nokkuð aflíðandi leið til norðurs upp á brúnina. Þegar aðstæður eru góðar og margt fólk á svæðinu er þessi leið troðin með snjótroðara. Í öðru lagi notfæra sér margir leiðina beint upp af Stromplyftu, svokallaða Uppgöngu sem er í stórri hvilft beint til vesturs upp af síðasta lyftustaur. Sú leið er mun brattari.

Nú komnar upp á Stallinn, staðan metin og litið í kringum sig, ákvörðun tekin um hvert skuli halda, eins og snjósoltnar úlfynjur í fullum skrúða, stefnum við á brúnina, upp Uppgönguna á fullu tungli.

...eins og snjósoltnar úlfynjur í fullum skrúða...

Samantekin ráð fyrr um daginn, skíði, glens og gaman með bændum og búaliði en nú, draumar um meira. Hillingar um fleiri beygjur undir mánaskini, skíðavalkyrjur í Goretexgalla. Eitthvað dulmagnað og svo óendanlega öðruvísi við birtuna og stemmninguna, endalausa næturkyrrðina.    

Við nánast undir brúninni, þar efst vegleg hengja sem í fyrstu lætur lítið yfir sér. Snjóalög nokkuð trygg, ýlar á réttum stað, skóflur og stangir í bakpokum. Stöldrum við og púlum sveittar síðustu metrana, bröltum loksins upp á þéttpakkaða hengjuna.

Snjóalög nokkuð trygg, ýlar á réttum stað, skóflur og stangir í bakpokum.

Komnar upp á brúnina og markmiðinu náð, kotroskinn karlinn í tunglinu hlær við okkur. Tökum dans í mánaskin. Skinnum kippt af skíðum og hert upp á festingum.

Nú skíðað yfir fannaskel, beint fram af hengjunni, dýrmætur gleðihrollur hríslast um okkur, þreyttar en alsælar, látum okkur vaða áfram í myrkrinu. Fljótar niður hverja brekkuna á fætur annarri, vetrarnálar í mánaskini, skeytum engu um frost og kulda, aðeins gleði og óþreyja í þessari bunu sem fær fáar aðrar staðist.

Mynd: Berglind Aðalsteinsdóttir

Mynd: Berglind Aðalsteinsdóttir