Súlusveigjur og skíðabeygjur

Sennilega hægt að velta sér lengi upp úr því hvert hið raunverulega bæjarfjall Akureyringa er og ekki úr vegi að ímynda sér að flestir bæjarbúar myndu nefna Súlur í slíkri upptalningu, þessir fallegu pýramída-löguðu tindar sem rísa yfir bænum í suðvestri, við mynni Glerárdals. Nær Akureyri Ytri-súla, en litlu sunnar Syðri-súla, örlítið hærri.  

Súlur eiga ætti sínar að rekja til Tröllaskaga og ekki úr vegi að vísa í orð Matthíasar Jochumssonar um landslagið á Tröllaskaga í þessu samhengi: Þar er "svo að sjá sem jötnahendur hefðu rótað þar öllu landslagi og bylt hverju ofan á annað, urðum, klaka og klungri. Lítur svo út að náttúran hafi þar nýlega gengið berserksgang og liggi nú berháttuð í rúmi sínu af gigt og ofreynslu". Stórskáldið fer hér skáldlegum orðum um þetta tröllslega landsvæði en myndun skagans er byggð upp af misþykkum hraunlögum.

,,…svo að sjá sem jötnahendur hefðu rótað þar öllu landslagi og bylt hverju ofan á annað, urðum, klaka og klungri. Lítur svo út að náttúran hafi þar nýlega gengið berserksgang og liggi nú berháttuð í rúmi sínu af gigt og ofreynslu.“

Á milli hraunlaga á Tröllaskaga eru þunn setlög, oft rauðleit og á það einmitt við um Súlur og þau fjöll sem teygja sig til suðurs í framhaldi af þeim, mynduð úr jarðvegi, stundum hvít eða grá leirsteins- eða sandsteinslög og jafnvel völuberg. Þessi setlög sér maður stundum þegar gengið er um skörð Tröllaskagans. Á ísöld runnu meginjöklar út firðina tvo, Skagafjörð og Eyjafjörð, en hliðarjöklar runnu til þeirra og grófu dali í hraunlögin. Stærstu jöklarnir sem runnu til meginjöklanna grófu meðal annars Glerárdal út. Sennilega hafa hlutar skagans staðið upp úr jöklunum á ísöld og á það ef til vill við um Súlur.  

Gestakomur á Súlur eru tíðar eins og algengt er með bæjarfjöll. Að jafnaði fara þar upp fleiri fjallagarpar vor, sumar og haust, en í seinni tíð hefur gestum fjölgað yfir vetrartíman. Algengara er að ganga á Ytri-súluna en sumir streða aukalega og skella sér líka á Syðri-súlu. Þá þykir fallegt að ganga hrygginn á milli þeirrar ytri og syðri. Forsvarsmenn Ferðafélags Akureyrar lögðu upp á Ytri-súlu göngustíg á árunum 1991 - 1992 og í seinni tíð hafa menn svo lagt sig fram um að snikka til og lagfæra göngustíginn, þá hefur verið bætt við stikum með tilheyrandi göngubrúm yfir mýrar og votlendi

Algengara er að ganga á Ytri-súluna en sumir streða aukalega og skella sér líka á Syðri-súlu. Þá þykir fallegt að ganga á hrygginn á milli þeirrar ytri og syðri.

FullSizeRender-7.jpg

Einhverju sinni var ég búin að þræla mér upp á hátind Ytri-súlu að vetrarlagi á skinnum og skíðum og gerði það upp við mig hvaða línu ég ætti að skíða niður af toppinum. Nær alkunna er að taka þá línu sem snýr til norðvesturs. Þegar hér var komið þótti mér lítil fjölbreytni í því, tékkaði á snjóflóðaýli, stöng og skóflu og stakk mér svo niður í gegnum klettahaft sem liggur til austurs í átt að Kristnesi; landnámi hinna kristnu landnámsmanna Helga magra og Þórunnar hyrnu. Töluverður bratti er í fyrri hluta leiðarinnar og áberandi flöskuháls ofarlega í leiðinni, en taka svo við aflíðandi holt þar sem maður má hafa sig allan við við að halda ferð. Mátti ég skíða og skauta á láglendinu eins og ég hefði lífið að leysa, en hafðist loks að komast á skíðunum alla leið að Kristnesi.

Rúsínan í pylsuendandum er hinsvegar að renna sér inn í skógræktina við Kristnes, hvort heldur sem þar svífi yfir vötnum helgur andi eða íslenskt fjallaloft, þá er tilfinningin nánast eins og að vera staddur í norskum skógi. Trén teygja sig upp til himins og gaman að sveigja sig og beygja á milli mis-digurra trjástofna. Sumum skíðamönnum hefur verið tíðrætt um að á Íslandi vanti skógana til að skíða í gegnum. Óhætt er að fullyrða að skíðabuna af Súlum getur svo sannarlega staðist þá kröfu, ef rétt leið er valin.