Hálft í hálfu eða hálft í hvoru

Árið er 2017 og ég stödd í startinu í Hausthlaupi maraþonhlaupara. Hjartað hamast og ég búin að lofa sjálfri mér að vera skynsöm. Ég ætli að klára þetta hlaup! Ég tvíreima skó, tékka á gelinu og segi svo við sjálfa mig: ,,Stattu þig stelpa!”

Hef staðið í þeirri meiningu að hálft eða heilt maraþon sé dauðans alvara, svona keppnis. Aðeins fyrir gallharða hlaupara með mikla reynslu; fyrir rasslausa karla og þvengmjóar konur sem keyra á mjólkursýrunni síðasta spölinn. Spyr mig á þessari stundu: ,,Hvað er ég að gera hér!?!”

…fyrir rasslausa karla og þvengmjóar konur…

Hef lengi dundað mér við að skokka. Alltaf gaman og alltaf gefandi. Byrjaði rólega, skokkaði nokkra metra fyrst en bætti svo við ár frá ári. Metrar urðu að kílómetrum og svo fleiri og fleiri kílómetrar. Eftir einhver ár tók fjalllendið við, eitthvað við það að skella sér í hlaupagallann og skokka af stað. 

Svo þegar maður er búinn að gera eitthvað nægilega oft og er orðinn öruggari fer maður að hugsa sinn gang, spá í hver verði næstu skref, - þá er kominn tími á breytingar. 

Rankaði svo við mér einn daginn og langaði að gera eitthvað meira, taka hlaupin skrefinu lengra. Tók svo þátt í Hausthlaupi UFA á Akureyri og hljóp þar 10 km í september 2017 og fannst það skemmtilegt. Gaman að hlaupa í hóp, finna fyrir keppninni en um leið mikil skemmtun. Eftir það hlaup hugsaði ég að nú væri kominn tími til að fara út fyrir þægindarammann, ég hlyti að geta hlaupið í stærra hlaupi eins og annar hver Íslendingur. Skráði mig í hvelli í Haustmaraþon maraþonhlaupara og ákvað að hlaupa þar hálft maraþon. Hugsaði með mér að ég hefði bara gott af því að taka þátt í enn einni áskoruninni. Stefndi á það í æfingunum næstu vikur. Fimm vikur í hlaupið og nú var að duga eða drepast, þetta var stuttur tími. 

Mætti svo í Elliðaárdalinn í október, - aldrei tekið þátt í hálfu maraþoni áður. Kaldur og stilltur morgun. Einstaklega fallegt í Reykjavík. Allir spenntir og ég mest spennt. Var búin að setja mér markmið og ætlaði að halda mig við það! Sallaróleg en stressuð, ákveðin í að fara ekki of geyst af stað, halda mínu. Hlaupið var ræst og ég fann fljótlega hlaupafélaga sem voru á svipuðu róli og ég, fjóra karlmenn. Við skokkuðum þetta á okkar hraða, kílómetra eftir kílómetra. Þetta voru greinilega reyndir menn. Vissu hvað þyrfti til til að halda réttum hraða. Ég fylltist öryggistilfinningu og lagði mig fram um að halda í við þá. Nú var að duga eða drepast.

Hlaupið var ræst og ég fann fljótlega hlaupafélaga sem voru á svipuðu róli og ég, fjóra karlmenn. Við skokkuðum þetta á okkar hraða, kílómetra eftir kílómetra. Þetta voru greinilega reyndir menn.

Mikið spjallað á leiðinni. Aðallega um önnur hlaup, aðbúnað, salernissögur og uppskriftir. Góð ráð um hvað væri best að elda kvöldið fyrir hlaup, hvort að vegan-, ketó- eða grænmetis- hentaði hlaupurum betur og svo framvegis. Já, það var alveg hreint ótrúlegt hversu hratt 00:1:45:33 liðu! Og ég á spjalli með bestu keppnisfélögum í heimi. Ef ég hef einhvern tímann haft fyrirfram gefnar hugmyndir um hvað er keppnishlaup gaf þessi dagur allt aðra mynd af því. Undir lokin spurði hæverskur hlaupafélagi mig hvort ég hefði þrek til að gefa aðeins í. Ég svaraði eitthvað pínu og saman tókum við smá hraðaaukningu, en svei mér þá, - sjaldan eða aldrei hef ég skemmt mér jafn vel í nokkurri keppni og sjaldan eða aldrei hef ég haft jafn rangar hugmyndir um hvað keppnishlaup er. Takk fyrir frábært hlaup, kæru félagar!

Og ég á spjalli með bestu keppnisfélögum í heimi. Ef ég hef einhvern tímann haft fyrirfram gefnar hugmyndir um hvað er keppnishlaup gaf þessi dagur allt aðra mynd af því.

Eftir þetta hlaup hef ég reyndar aldrei tekið þátt í hálfu eða heilu maraþoni aftur, en þess í stað hef ég spreytt mig á nokkrum fjallahlaupum. Ég skráði mig svo í hlaupahóp UFA - Eyrarskokks í framhaldi af þessu og æfi með þeim eins og ég get. Þess má geta að sama gleðitilfinningin kemur alltaf aftur upp þegar ég tek þátt í keppni og fyrir það þakka ég jákvæðri reynslu í þessu fyrsta maraþoni og minni eigin skynsemi.