Tindatékk á Toyotu

Krassandi skíðalínur og dýrmætt púður eru skíðamönnum mikils virði og er mér í fersku minni leiðangur sem ég fór í einmánuði árið 2004. Ferðinni var heitið í Hvalvatnsfjörð í Grýtubakkahreppi á Norðausturlandi í ákafri leit að þessu tvennu.

fjordurKort[1].jpg

Þessi vetur hafði verið óvenju snjóléttur og erfitt að hafa upp á fannhvítri mjöllinni. Ákvörðun hafði þó verið tekin, á skíði skyldum við og stefndi nú hópur frá höfðuborgarsvæðinu að því að koma  norður og taka brekkurnar út. Því var ekkert annað að gera í stöðunni en að leggja höfuðið í bleyti, skoða aðstæður og taka svo upplýsta ákvörðun um hvert skyldi stefnt.

Á sunnudegi í svellandi sunnangolu og heiðríkju var brennt á blikkbeljunni í átt að Grenivík. Við vorum þrjár í bílnum, tvær fullorðnar konur og fimm ára gömul dóttir mín sem sat í upphækkuðum barnastól og maulaði rúsínur í aftursætinu. Þegar komið var að afleggjaranum að Hvalvatnsfirði var okkur litið upp með veginum og brostum í kampinn. Þetta yrði lítið mál, vegurinn var snjólaus og þurr, - við yrðum ekki lengi að skælast inn að Gili og taka þetta út. Toyotu Hilux skellt í fjórhjóladrifið, hleypt út dekkjum og áfram var haldið.

Ferðin sóttist vel, nú vorum við komnar upp á Leirdalsheiðina, þvílíkt útsýni og þvílík fegurð, gamla góða Frón klikkar ekki. Þjóðarrembingur og sveitarómantík seytluðu fram úr hverri lækjarsprænu og Íslandsdætur geystust áfram. Þá tóku við snjóbrýr, mistraustar en við fórum þetta á blússandi fartinni, óhræddar og sigurreifar.

Leirdalsheiði.JPG

Að Gili eru um 27 kílómetrar frá afleggjara, þegar við áttum um 12 kílómetra eftir komum við að enn einni lækjarsprænunni, en nú reið á að gefa tuðrunni vel inn þar sem hún þurfti að hafa sig upp á veglegan bakka hinumegin árinnar. Allar héldum við niður í okkur andanum, dísillinn var gefinn í botn og tíminn stóð í stað, svart mengunarskýið leið yfir okkur og skyggði á sæla sunnu. Kagginn spólaði af stað og fósturlandsins freyjur í japönsku afkvæmi magalentu nú farskjótanum með miklum dynk á snjóbrúnni sem gaf sig undan þunganum.

Allar héldum við niður í okkur andanum, dísillinn var gefinn í botn og tíminn stóð í stað, svart mengunarskýið leið yfir okkur og skyggði á sæla sunnu.

Við sátum fastar í sytrunni, afturdekkin spóluðu glaðhlakkalega. Samferðakona mín vatt sér út úr bílnum og gerði snöggt mat á stöðunni. Það yrði að moka undan druslunni til að komast upp úr pyttinum. Við spörkuðum fagmannlega í dekkin, litum undir gripinn og afturhlerinn var opnaður. - En þá uppgötvaðist það; pallurinn var svo að segja tómur! Jú, þarna var rauð dótaskófla (reyndar með löngu skafti), gul fata og tennisspaði. Þetta yrðum við að gera okkur að góðu. Áhöldin voru rifin út og barnið spennt í sætið, birgt upp með kexi og heimasmurðum samlokum.

Búkonur skelltu sér undir beygluna og hófst nú verkið. Sól skein í heiði og svitinn lak af okkur. Við mokuðum og mokuðum, skiptumst á með tól og tæki og náðum sífellt meiri snjó undan bílnum. Nú vorum við komnar verulega langt undir göltinn og ég lá nánast flöt undir með fremri öxulinn í kjaftinum þegar allt í einu BÚMM. Stór skafl losnaði og flykkið lá ofan á mér, ég gat mig hvergi hreyft. Ferðafélaginn gerði eldsnöggt mat á stöðunni og tilkynnti svo með öndina í hálsinum að hún þyrfti að reyna að ná mér undan bílnum með því að kippa í báðar fætur hratt og örugglega og á sama tíma yrði ég að reyna að hjálpa til með því að ýta mér undan farginu. Með samstilltu átaki og í fumlausri athöfn töldum við einn, tveir og þrír. Ég var laus!  - Ekki mátti tæpara standa.

Nú vorum við komnar verulega langt undir göltinn og ég lá nánast flöt undir með fremri öxulinn í kjaftinum þegar allt í einu BÚMM.

Eftir þriggja tíma púl dönsuðu Íslandsbeðjur sigurdans í kvöldsólinni, veifuðu rauðri dótaskóflu og gulri fötu fullvissar um að nægur snjór yrði í Hvalvatnsfirði. Rauðar rákir á vinstri vanga minntu nærstaddar á að þarna skall hurð nærri hælum. Dekksvartir draumar um að geysast um hálendi Íslands á vélknúnum tækjum liðu hjá, sannfærðar um að okkur henti betur sólbakaðir tindar á tveimur jafnfljótum.