Skíði, skinn og fjallahamingja

Fátt er jafn heillandi eins og að draga fram skíði og skinn að kvöldi og arka af stað upp til fjalla. Túrinn þarf ekki að vera langur eða fjallið hátt, né bratt - öllu merkilegra er koma sér út út húsi og njóta þess sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða í froststillum og fallegu vetrarveðri.

Í gegnum tíðina hafa menn og konur gert sér far um að finna lausn(ir) á því hvernig hægt er að skunda upp í móti á skíðum og renna sér svo niður misbrattar hlíðar, þannig að gleði og hamingja njótist af.

Þá má segja að til þess séu þrjár meginleiðir. Í fyrsta lagi, rifflaður botn á skíðunum, sem tryggir það að viðkomandi renni síður aftur-á-bak þegar gengið er upp í móti. Í öðru lagi, umtalsvert magn af klístri eða áburði sem tekur mið af hitastigi hverju sinni og síðast en ekki síst, svokölluð skinn sem límd eru á botn skíðanna og koma í veg fyrir rennsli aftur-á-bak. 

Scarpa Freedom Women´s Fall 14

Scarpa Freedom Women´s Fall 14

Síðasti kosturinn er lang algengastur á fjöllum. Þá er skinnunum skellt undir skíðin: framhlutinn hengdur upp á skíðaoddinn og afturhlutinn svo kræktur í bakendann. Því næst er bindingunum breytt úr hefðubundinni svigskíðastillingu í þar til gerða göngustillingu, allt eftir því hvernig bindingarnar eru úr garði gerðar.

Á göngunni skiptir máli að viðkomandi líði sæmilega vel, þá er betra að klæðast  skíðaskóm eða skíðaklossum, sem hannaðir eru sérstaklega fyrir göngu og rennsli á fjöllum. Hér er átt við plastskó í líkingu við svigskíðaklossa en þó lægri og mýkri en almennt tíðkast og auk þess með hreyfanleika við ökkla.

Black Diamond: Expedition 2 Adjustable Ski Poles/Black Diamond Element Skis

Black Diamond: Expedition 2 Adjustable Ski Poles/Black Diamond Element Skis

Þá hafa verið framleiddir sérstakir skíðastafir fyrir fjallaskíðafólk. Þeir eru þannig úr garði gerðir að hægt er að hækka þá og lækka, á afar einfaldan hátt, og sumir bjóða jafnvel upp á dempara og fleiri spennandi viðbætur, allt eftir framleiðanda.

Að síðustu skiptir máli að minna á hina heilögu þrenningu; skóflu, snjóflóðastöng og snjóflóðaýli. Fólk sem ferðast um fjalllendi á veturna á ALLTAF að ferðast með bakpoka og í honum á ALLTAF að vera skófla og snjóflóðastöng og sá hinn sami á ALLTAF að hafa á sér snjóflóðaýli. - Svo einfalt er það!

Úrvalið af útbúnaði til að ferðast um fjöll og fyrnindi er endalaust. Áður en lagt er út í búnaðarkaup er mikilvægt að fá góð ráð og kanna markaðinn. Hver og einn verður að velja það sem hentar út frá áhuga og getu. - Og þá er ekkert annað eftir en að smella sér í bindingarnar og arka af stað.